- Details
Árshátíð Landeigendafélags Hests fór fram laugardaginn 3. ágúst s.l. Fólk hafði haft nokkrar áhyggjur af veðurspá í aðdraganda helgarinnar en spáin batnaði eftir því sem nær dró og á endanum varð ágætis veður til hátíðahalda.
Dagskrá og undirbúningur hátíðarinnar var með hefðbundnum hætti. Undirbúningur var í margra höndum og hafði staðið í nokkurn tíma. Meðal annars höfðu Jóhannes í Æsu og Halldór í Kerlingagarði tekið dagpart í að smíða verlaunagripi fyrir kubbamótið. Halldór sá einnig um að sækja um leyfi fyrir varðeldi til lögreglunnar á Selfossi. Innkaup vegna veitinga önnuðust Jenetta og Benóný í Draumi. Þá hafði Elísabet á Staðarhóli milligöngu um að fá Garðar Garðarsson til að spila fyrir brekkusöng. Föstudaginn fyrir árshátíð hafði Jenetta í Draumi kallað til lið vaskra manna að lagfæra varðeldinn og fjarlægja sprek og afklippur af varðeldasvæðinu. Þá tengdi Buna nýja brunaslöngu við dæluna í Kinnhesti og Benóný í Draumi sá um að bleyta svæðið í kring um varðeldinn þannig að ekki skapaðist eldhætta vegna sinubruna. Árni í Gaularási sá síðan um að slá grasflatirnar í Kinnhesti svo hægt væri að nota þær sem keppnisleikvang fyrir kubbamótið. Eins og oft áður var farið yfir reglur mótsins kl. 11:00 á keppnisdag og nýliðar fræddir um leikinn.
Hátíðin byrjaði kl. 13:00 með brandarakeppni barna en strax að henni lokinni hófst Hestlandsmeistaramótið í kubb. Í báðum þessum mótum er keppt um veglega farandbikara. Skömmu áður en brandarakeppnin byrjaði sló Benóný í Draumi tölu á þá sem mættir voru á hátíðarsvæðið í Kinnhesti og taldi milli 120 og 130 manns. Þátttakendur í brandarakeppninni voru 16 að þessu sinni á aldrinum 3ja – 12 ára. Í dómnefnd voru María á Maríubakka, formaður, ásamt Steindóri í Bóli og Alexander í Brekkukoti. Starfsmaður keppninnar og stigavörður var Edda í Brekkukoti. Keppnin var að vanda afar skemmtileg og margir eftirminnilegir brandarar sagðir með viðeigandi tilþrifum. Fólk á miðjum aldri gladdist sérstaklega að heyra aftur brandarann um strákinn Buxur sem vinsæll var fyrir um þrjátíu árum. Eftir tvísýna keppni var það niðurstaða dómnefndar að Elín Alma, 11 ára Hlíðarendasnót, hefði verið hlutskörpust og fékk hún Rugguhestinn til varðveislu næsta ár. Fast á hæla henni komu Halla Rakel í Æsu, 10 ára, og Fanney í Draumi, 12 ára. Nokkur vandamál voru með hljóðkerfið í brandarakeppninni en notaður var 15 w magnari. Til athugunar er að nota magnarakerfið í golfskálanum en Hestlendingar eru meðeigendur í því. Vonandi standa hljóðmálin því til bóta.
Metþátttaka var í Hestlandsmeistaramótinu í kubbi en 27 lið skráðu sig til keppni að þessu sinni. Að vanda var leikið á fjórum keppnisvöllum. Mótsstjóri var Halldór í Kerlingagarði en dómarar voru Sigurður í Ásgarði, Alexander í Brekkukoti, Jón Karl í Reynihlíð og Róbert í Laufeyju. Að sjálfsögðu dæmdu dómarar ekki leiki liða frá eigin bæ. Ánægjulegt var að sjá hve vel sum liðin höfðu undirbúið sig, bæði hvað varðar búninga og leiktækni. Þá var almennt jöfn þátttaka barna og fullorðinna í keppnisliðum. Í sumum liðum voru þrjár kynslóðir; barn, foreldri og afi eða amma. Keppnin var snörp og hörð eins og vænta má í útsláttarmóti. Leikmenn voru samt prúðir og báru sig vel þó þeir biðu í lægra haldi. Það sýndi sig að æfing skiptir máli í kubb sem í öðrum íþróttum. Að lokinni æsispennandi lokasennu stóð sveinalið Laufeyjar uppi sem sigurvegarar eftir að hafa sigrað lið Reynihlíðar í úrslitaleik. Í leik um þriðja sæti vann Klettasel harðsnúið kvennalið Parísar eftir einstaklega spennandi leik. Parísarbúar áttu sterkan stuðningsmannahóp sem hvatti lerikonurnar til dáða og hélt uppi góðum keppnisanda allt til loka. Þá voru Parísardömurnar í fallegum samstæðum búningum og fengu að launum búningaverðlaunin 2013.
Ása í Æsu og Elísabet á Staðarhóli sáu um veitingar strax að brandarakeppninni lokinni. Boðið var uppá gos og grillaðar pulsur. Var það vel þegið af keppendum í kubbamótinu að fá gos og eitthvað í svanginn á milli leikja.
Veður var ágætt um eftirmiðdaginn, nokkur vindur af norðri og nokkrir dropar öðru hvoru án þess að hægt væri að tala um rigningu. Lofthiti var um 14 gráður. Um kvöldið lægði og birti og varð veður þá eins gott og hugsast gat. Um kvöldið safnaðist fólk saman við varðeldinn og voru þar samankomin um 150 manns. Kveikt var í varðeldinum kl. 22:00. Nokkru eftir að kveikt hafði verið í varðeldinum ávarpaði umsjónarmaður árshátíðarinnar samkomuna og mælti fyrir minni formanns landeigendafélagsins, sem gat ekki verið á hátíðinni að þessu sinni. Að því loknu spilaði Garðar Garðarsson, trúbador kvöldsins, vinsæl brekkusönglög í stilltri sumarnóttinni við góðar undirtektir Hestlendinga og árshátíðargesta þeirra.
Benóný og Jenetta í Draumi týndu saman flöskur á sunnudagsmorgni en eftir hádegi komu Halldór og Ólína í Kerlingagarði og aðstoðuðu þau Jenettu og Benóný við að taka til í geymslu og ganga frá rusli.
Að lokum er rétt að þakka öllum þeim fjölmörgu sem aðstoðuðu við undirbúning og framkvæmd árshátíðarinnar með von um að Hestlendingar og gestir þeirra hafi skemmt sér vel í leik og söng.
Kveðja,
Halldór í Kerlingagarði.
- Details
Stjórnartíðindi
Júlí 2013
Á síðasta aðalfundi var kjörin ný stjórn sem með einni veigamikilli breytingu er sú sama og síðasta, en við formennsku af Eddu Ástráðsdóttur hefur tekið Ólafur Kristinsson.
Ný stjórn mun leitast við að vera í sem bestu sambandi við hestlendinga og nýta þennan vettvang til að upplýsa um helstu viðfangsefni og framvindu þeirra eftir því sem efni standa til.
Hitaveita; Vaxandi áhugi er meðal félagsmanna á að fá heitt vatn til upphitunar á húsum sínum enda nokkuð ljóst að rafmagn til húshitunar mun á komandi árum fara hækkandi. Við höfum fengið þær upplýsingar að Grímsnes og Grafningshreppur selur aðgang að veitukerfi sínu og má sjá gjaldskrána á heimasíðu hreppsins. Heitt vatn er nú komið næst okkur í sumarbústaðalandið Hraunborgir. Ekki er á framkvæmdaáætlun sveitafélagsins að bjóða upp á þennan valkost fyrr enn sveitafélagið telur nokkurn veginn tryggt að um sé að ræða yfir 50% þátttöku bæði okkar í Hestlandi og einnig meðal Kiðjabergsmanna. Þá munu framkvæmdir geta hafist nokkuð greiðlega. Húseigendur fá vatnið að lóðarmökum, en ráða sjálfir verktaka fyrir heimtaug og vinnu í húsinu. Þessi kostnaður gæti numið allt að 2,5 miljónum króna. Væntanlega munum við fljótlega gera á grundvelli þessara upplýsinga skoðanakönnun meðal félagsmanna.
Brunavarnir; Sumarbústaðalönd landsmanna hafa víða gróið upp með miklum hraða í skjóli hlýnandi loftslags og með almennri vakningu meðal landsmanna til uppgræðslu. Ljóst er að þessu fylgir einnig aukin hætta á hraðri útbreiðslu elds ef til eldsvoða kemur. Stjórnin hefur verið í sambandi við brunavarnir Árnessýslu og verið vel tekið. Þeir beina til okkar að huga hver um sig að sínu nærumhverfi, leitast við að hafa sem minnstan eldsmat við bústaðinn, brýna fyrir sínum nánustu að hafa fyllstu aðgát þegar grillað er, ekki síst ef bústaðurinn er í höndum gesta og hafa greiðan aðgang að vatni, góða krana og slöngur.
Lúpínan; Þá má einnig benda á að lúpínan er fljót að breiða út eld og því enn ein ástæða til þess að hvetja lóðareigendur til að halda aftur af útbreiðslu hennar með kerfisbundnum slætti.
Vegurinn; Nýlega var gert við vegspottann frá Kiðjabergi að hliði og var sú framkvæmd gerð af Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða, en kostað af hestlendingum og Kiðjabergsmönnum. Viðhald Ormsins langa er stöðugt í skoðun og fer sennilega að líða að sambærilegri framkvæmd þar því ekki er gott að láta hann drabbast niður þar sem gott ástand hans skilar sér til okkar allra.
Með kveðju fyrir hönd stjórnar Hests og Bunu Rafn A. Ragnarsson ritari.
- Details
Árshátíð Landeigendafélags Hests 2013 verður haldin með hefðbundnum hætti um Verslunarmannahelgina og fer fram á félagssvæðinu í Kinnhesti laugardaginn 3. ágúst.
Að venju hefst árshátíðin kl. 13:00 á Brandarakeppni barna og að henni lokinni fer fram Hestlandsmeistaramót í Kubb. Léttar veitingar (pylsur og gos) verða í boði félagsins að Brandarakeppninni lokinni. Um kl. 22 um kvöldið verður varðeldur í Kinnhesti með brekkusöng.
Skráning í Kubbmótið og Brandarakeppni barna fer fram á staðnum. Keppt er um veglega farandgripi. Að vanda keppa 3ja manna lið í Kubbmótinu. Einnig er veitt viðurkenning fyrir besta liðsbúninginn. Kennsla fyrir byrjendur í Kubbi fer fram í Kinnhesti keppnisdaginn kl. 11:00.
Upplýsingar um reglur Brandarakeppninnar og Hestlandsmeistaramótsins í Kubbi má sjá á heimasíðu félagsins undir "Landeigendafélag" og "Félagsstörf". Góða skemmtun!
f.h. árshátíðarnefndar, Halldór í Kerlingagarði
- Details
Ágætu formenn sumarhúsafélaga.
Núna var að koma inná heimasíðu sveitarfélagsins skrá yfir fornleifar.(gogg.is hnappur Fornleifaskráning í Grímsnes- og Grafningshrepp)
Fornleifar voru skráðar og hnitsettar í tengslum við aðalskipulags gerð um aldamótin síðustu. Það gæti verið spennandi fyrir sumarhúsaeigendur að skoða hvort áhugaverðar minjar leynist í næsta nágrenni við sig.
bestu kveðjur
Hörður Óli Guðmundsson
varaoddviti