Árshátíð Landeigendafélags Hests 2013 verður haldin með hefðbundnum hætti um Verslunarmannahelgina og fer fram á félagssvæðinu í Kinnhesti laugardaginn 3. ágúst.

Að venju hefst árshátíðin kl. 13:00 á Brandarakeppni barna og að henni lokinni fer fram Hestlandsmeistaramót í Kubb. Léttar veitingar (pylsur og gos) verða í boði félagsins að Brandarakeppninni lokinni. Um kl. 22 um kvöldið verður varðeldur í Kinnhesti með brekkusöng.

Skráning í Kubbmótið og Brandarakeppni barna fer fram á staðnum. Keppt er um veglega farandgripi. Að vanda keppa 3ja manna lið í Kubbmótinu. Einnig er veitt viðurkenning fyrir besta liðsbúninginn. Kennsla fyrir byrjendur í Kubbi fer fram í Kinnhesti keppnisdaginn kl. 11:00.

Upplýsingar um reglur Brandarakeppninnar og Hestlandsmeistaramótsins í Kubbi má sjá á heimasíðu félagsins undir "Landeigendafélag" og "Félagsstörf". Góða skemmtun!

f.h. árshátíðarnefndar, Halldór í Kerlingagarði

Bréf frá Herði Óla Guðmundssyni varaoddvita:
________________________________________

Ágætu formenn sumarhúsafélaga.

Núna var að koma inná heimasíðu sveitarfélagsins skrá yfir fornleifar.(gogg.is hnappur Fornleifaskráning í Grímsnes- og Grafningshrepp)

Fornleifar voru skráðar og hnitsettar í tengslum við aðalskipulags gerð um aldamótin síðustu. Það gæti verið spennandi fyrir sumarhúsaeigendur að skoða hvort áhugaverðar minjar leynist í næsta nágrenni við sig.

bestu kveðjur

Hörður Óli Guðmundsson

varaoddviti

Stjórnartíðindi
Júlí 2013

Á síðasta aðalfundi var kjörin ný stjórn sem með einni veigamikilli breytingu er sú sama og síðasta, en við formennsku af Eddu Ástráðsdóttur hefur tekið Ólafur Kristinsson.
Ný stjórn mun leitast við að vera í sem bestu sambandi við hestlendinga og nýta þennan vettvang til að upplýsa um helstu viðfangsefni og framvindu þeirra eftir því sem efni standa til.

Hitaveita; Vaxandi áhugi er meðal félagsmanna á að fá heitt vatn til upphitunar á húsum sínum enda nokkuð ljóst að rafmagn til húshitunar mun á komandi árum fara hækkandi. Við höfum fengið þær upplýsingar að Grímsnes og Grafningshreppur selur aðgang að veitukerfi sínu og má sjá gjaldskrána á heimasíðu hreppsins. Heitt vatn er nú komið næst okkur í sumarbústaðalandið Hraunborgir. Ekki er á framkvæmdaáætlun sveitafélagsins að bjóða upp á þennan valkost fyrr enn sveitafélagið telur nokkurn veginn tryggt að um sé að ræða yfir 50% þátttöku bæði okkar í Hestlandi og einnig meðal Kiðjabergsmanna. Þá munu framkvæmdir geta hafist nokkuð greiðlega. Húseigendur fá vatnið að lóðarmökum, en ráða sjálfir verktaka fyrir heimtaug og vinnu í húsinu. Þessi kostnaður gæti numið allt að 2,5 miljónum króna. Væntanlega munum við fljótlega gera á grundvelli þessara upplýsinga skoðanakönnun meðal félagsmanna.

Brunavarnir; Sumarbústaðalönd landsmanna hafa víða gróið upp með miklum hraða í skjóli hlýnandi loftslags og með almennri vakningu meðal landsmanna til uppgræðslu. Ljóst er að þessu fylgir einnig aukin hætta á hraðri útbreiðslu elds ef til eldsvoða kemur. Stjórnin hefur verið í sambandi við brunavarnir Árnessýslu og verið vel tekið. Þeir beina til okkar að huga hver um sig að sínu nærumhverfi, leitast við að hafa sem minnstan eldsmat við bústaðinn, brýna fyrir sínum nánustu að hafa fyllstu aðgát þegar grillað er, ekki síst ef bústaðurinn er í höndum gesta og hafa greiðan aðgang að vatni, góða krana og slöngur.

Lúpínan; Þá má einnig benda á að lúpínan er fljót að breiða út eld og því enn ein ástæða til þess að hvetja lóðareigendur til að halda aftur af útbreiðslu hennar með kerfisbundnum slætti.

Vegurinn; Nýlega var gert við vegspottann frá Kiðjabergi að hliði og var sú framkvæmd gerð af Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða, en kostað af hestlendingum og Kiðjabergsmönnum. Viðhald Ormsins langa er stöðugt í skoðun og fer sennilega að líða að sambærilegri framkvæmd þar því ekki er gott að láta hann drabbast niður þar sem gott ástand hans skilar sér til okkar allra.

Með kveðju fyrir hönd stjórnar Hests og Bunu Rafn A. Ragnarsson ritari.

Bréf frá Herði Óla Guðmundssyni varaoddvita:
________________________________________
 
Ágætu formenn sumarhúsafélaga.
 
Nokkuð hefur borið á því að sorp hefur lent þar sem það á ekki að vera. Hvort um er að kenna verktakanum, sveitarfélaginu eða sumarhúsaeigendum á þetta ekki að vera svona. Mælst er til þess að ef ílátin eru full að sorp sé ekki lárið fyrir utan þau. Vargur, hrafn og tófa eru fljót að tæta umbúðir og ná sér í eitthvað bitastætt sem leynist í sorpinu, bitnar þetta á umhverinu hvað mest og auka vinna fyrir starfsmenn verktakans og sveitarfélagsins að tína sorpið saman. Er það von okkar að notendur þjónustunar sýni því skilning að finna ferkar annað ílát sem ekki er orðið fullt til dæmis á gámastöðunum til að losa sig við rusl. Nýr staður fyrir ílát er kominn upp í landi Alviðru, við vegamót Biskupstungnabrautar og Grafningsvegar.
 
Síðustu ár hefur þetta gengið nokkuð vel og kemur þetta ástand okkur því mjög á óvart.
 
bestu kveðjur
 
Hörður Óli Guðmundsson
varaoddviti