Trjárækt er mikil í Hesti og augljóst að margir hafa mikinn áhuga á trjám og trjárækt. Á haustin eru margar trjátegundir með þroskuð fræ. Þá er tilvalið að safna fræi og sá til nýrra trjáa að vori. Góðar upplýsingar um söfnun fræa, meðhöndlun þeirra og sáningu er víða að fá, bæði í bókum, tímaritum og á netinu. Eftirfarandi slóð http://www.rit.is/?PageID=292 er með gagnlegar upplýsingar um söfnun og sáningu trjáfræa.

 

Sumarið í Hesti hefur verið gott fyrir trjárækt. Þrátt fyrir kulda fyrrihluta sumars hafa tréin almennt vaxið vel, bæði barrtré og lauftré. Árssprotar aspa eru með besta móti og á það einnig við um árssprota grenitrjáa og furu. Þá eru margar trjátegundir komnar með fræ.

Tiltölulega auðvelt er að koma til fræi af birki og elri en báðar þessar tegundir eru víða með miklu fræi í Hesti. Fræðið þroskast í september og október eða þegar það verður brúnt. Mynd af fræreklum á birki er hér til vinstri. Birkifræið er nú þegar tilbúið til söfnunar en fer að falla þegar líður á haustið. Þá er ölurinn einnig víða með miklu fræi, t.d. grænölurinn sem vex í Kinnhesti. Fræið á grænelrinum er ennþá grænt en fer að verða tilbúið til söfnunar á næstu vikum. Fleiri elritegundir eins og sitkaölur og blæölur vaxa einnig víða í Hesti og eru með fræi.

Fræ af birki og elri er safnað með því að slíta fræreklana af greinum trjánna. Reklarnir eru síðan þurrkaðir t.d. í skál eða bakka við stofuhita. Þá opnast reklarnir og fræin detta úr þeim. Fræunum er síðan safnað saman og þau geymd á þurrum stað þar til að sáningu kemur. Fræunum er sáð í sáðbakka innanhúss t.d. í mars-apríl eða utanhúss í maí. Fræum birkis og elris er dreift á yfirborð sáðbakkans. Þau spíra almennt á nokkrum dögum.

Ölurinn þrífst í samlífi við svepp. Því er nauðsynlegt að tryggja að sveppurinn sé til staðar strax við sáninguna. Það er gert með því að grafa upp rót af elri, en þar er sveppurinn, og blanda moldina af rótinni saman við fræðið áður en því er sáð. Með því móti er fræið smitað af sveppnum. Mynd af fræreklum elris er hér að neðan.

fraereklar-erils

Þegar litlu plönturnar hafa náð nokkurra sentimetra hæð er þeim umplantað eða þær settar í dreifbeð. Plöntunum er síðan plantað út þegar það hentar.